Profile
Blog
Photos
Videos
Við komum til Siem Reap í Kambódíu um kvöld eftir 13 tíma ferðalag og vorum ekki búin að panta neina gistingu af því að við héldum að það væri minnsta mál að finna gistingu þegar við værum komin. Það sem við hins vegar vissum ekki var að kínverska nýja árið var að ganga í garð og þess vegna voru bókstaflega ÖLL hótel fullbókuð. Tuktuk-bílstjórinn okkar keyrði með okkur út um alla borgina en alls staðar var fullt svo við enduðum á því að gista í ógeðslegustu holunni í Siem Reap sem bílstjórinn fann fyrir okkur. Við vorum alls ekki viss hvort þetta hotel eða það að sofa á götunni væri betri kostur en á endanum létum við okkur hafa það að gists þarna. Við fengum vissulega hlýjar móttökur frá einkennilega glöðum manni sem stóð í tröppunum og brosti til okkar á handklæðinu einu saman...og varla það. Það er varla hægt að lýsa því hve drullug herbergin voru, veggirnir, rúmin, sængurfötin, handklæðin...allt var þetta brúnt á litinn en ekki hvítt. Pöddur voru út um allt hvort sem um gólf eða rúm var að ræða og í öðru herberginu var risastórt gat í loftinu sem lak úr ofan á eitt rúmið. Klósettin voru svo ógeðsleg að enginn þorði að fara þangað einn inn hvað þá að hætta sér í sturtu. Það er óhætt að segja að enginn svaf vært þessa nótt þrátt fyrir að vera uppgefin eftir langt ferðalag.
Við fórum þó á betra hótel daginn eftir þar sem við gistum í tvær nætur. Við pöntuðum dagsferð í gegnum tuktuk-vin okkar að skoða þrjú hof, þ.á.m. Angkor Wat sem var mögnuð sjón, og Floating Village. Strákarnir skelltu sér svo í fótbolta með bílstjóranum og vinum þeirra.
Floating Village er eins og nafnið gefur til kynna fljótandi þorp en þar býr fólk í eins konar húsbátum. Maður fann fyrir hvað maður var þakklátur fyrir sitt eigið heimili á Íslandi þegar maður sigldi í gegnum þorpið. Leiðsögumaðurinn okkar sigldi síðan með okkur á markað þar sem hann lét okkur kaupa bæði hrísgrjón og vatn fyrir börn sem áttu að vera munaðarlaus og búa í skólanum sínum. Þegar við komum í skólann voru börnin þar 7 en ekki 50 talsins eins og hann sagði, voru að horfa á teiknimynd og litu hvorki út fyrir að vera munaðarlaus né búa þarna. Leiðsögumaðurinn sagði okkut síðan að leika við börnin og taka myndir af þeim eins og þau væru dýr en við afþökkuðum pent. Þegar við sigldum í burtu fengum við það svo óþægilega mikið á tilfinninguna að maturinn og vatnið hefðu aldrei skilað sér í skólann heldur verið siglt til baka á markaðinn fyrir næstu grunlausu ferðamenn að kaupa.
Þegar við komum til baka heimtaði tuktuk-"vinur" okkar að við borguðum honum 50$ á mann fyrir skutlið síðustu daga. Okkur brá heldur betur því við vorum búin að borga 45$ fyrir daginn, gefa þeim mat og ríflegt þjórfé. Eftir mikið rifrildi neyddumst við til þess að borga því hann kippti sér ekki einu sinni upp við það þegar við hótuðum að hringja í tourist police þvi hann sagðist vera með þá í vasanum.
Heldur súr í bragði héldum við til Shianoukville sem er yndislegur strandabær hinum megin í landinu. Þegar við komum um kvöldið vorum við öll glorsoltin eftir 10 tíma ferðalag sem átti að vera 6 tímar og fórum á fyrsta veitingastaðinn sem við fundum. Við biðum í rúmlega klukkutíma og þá kom loksins ein pizza, svo biðum við í annan hálftíma og þá kom ein í viðbót og þá gáfumst við upp, borguðum fyrir gosið og fórum á næsta stað. Við þurftum endilega að velja staðinn við hliðina á og auðvitað kom þjónninn á eftir okkur, með matinn í poka og heimtaði að við borguðum. Við harðneituðum að borga fyrir allt saman en borguðum á endanum fyrir þessar tvær pizzur. Já það má segja að Kambódíuævintýrið hafi byrjað brösulega.
Dagarnir sem við áttum í Shianoukville einkenndust af sól, strandarferðum, vespurúntum um bæinn og mútum við lögguna til að fá ekki sekt fyrir að vera ekki með alþjóðlega ökuskírteinið. Stelpurnar gerðu heiðarlega tilraun til að fara á ströndina á vespum en voru ekki búnar að keyra í 10 mín þegar Martha datt á sinni og lá endilöng á götunni og stoppaði alla umferð. Þær komu til baka með skottið á milli lappanna og settu hjálmana á hilluna í bili.
Frá Shianoukville sigldum við á paradísareyjuna Koh Rong. Þar áttum við himneska daga þar sem sjórinn var kristaltær og sandurinn hvar svo hvítur og mjúkur að það marraði í honum þegar maður steig niður. Við gistum í litlum strákofum við ströndina þar sem veggirnir lifnuðu við á nóttunni vegna pöddulífs. Íslenskur strákur sem var að vinna á veitingastað þarna mælti með því að við færum hinum megin á eyjuna á strönd sem er af mörgum talin með þeim flottustu í Kambódíu. Það var skemmtileg ganga í gegnum frumskóginn á leiðinni með smá klettaklifri í lokin á leiðinni á ströndina sem var svo verðskulduð eftir langa gönguna. Þegar leið að kvöldi tókum við bát til baka og þurftum við að vaða sjóinn upp að höku með bakpokana á höfðinu til að komast upp í hann. Daginn eftir leigðum við kayak og sigldum út í nálæga eyju. Þar stukkum við út í með snorklgræjurnar á okkur og skoðum litskrúðug kóralrif og iðandi fiskalífið í kring.
Við hefðum viljað vera lengur í þessari paradís en því miður var alls staðar fullt á eyjunni svo við drifum okkur til Phnom Penh. Við gistum þar eina nótt og daginn eftir fórum við að skjóta, stelpurnar og Sölvi úr AK-47 en Tryggvi og Jonni úr M16. Næsta stopp var svo Killing fields þar sem við lærðum um þá hræðilegu atburði sem áttu sér stað á áttunda áratugnum þar sem milljónir létu lífið.
Um kvöldið kvöddum við Kambódíu með bros á vör og tókum næturrútu til Ho Chi Minh í Víetnam.
- comments



Mamma Pía Takk elskurnar...þið hafið svo sannarlega klórað ykkur frammúr áskorunum og erfiðleikum yfir og allt í kring. Þið eigið hrós skilið og þegar heim verður komið kunnið þið jafnvel að meta tuðið í mömmu :D Faðmlag á ykkur og vonandi reynist Víetnam ykkur betur en Kambodía <3
Rakel (Vinkona Mörthu) Ohh hvað er gaman að lesa um ævintýrin ykkar!
Kristín B.Magnúsdóttir Gaman að lesa bloggið ykkar. Engin smá upplifun hjá ykkur bæði slæm og góð. Gott að Martha slasaði sig ekki á vespunni. En þið verðið greinilega reynslunni ríkari. Knús til ykkar.
Ingibjörg Valgeirsdóttir Stórskemmtileg frásögn, maður lifir sig agjörlega inn í aðstæður :) Frábært að lesa þetta og verður gaman hjá ykkur að eiga þetta þegar frá líður. Þetta er þvílíka ævintýrið og fjölbreyttar áskoranir. Heldur betur þroskaferðalag :) Njótið vel elsku gullin mín - erum svo endalaust stolt af ykkur. Hlýjar kveðjur!
Amma Hrefna Gott að lesa hvað þið eruð dugleg að bjarga ykkur og standið ykkur vel í skóla lífsins. Bíð spennt eftir næsta bloggi þau eru svo nærandi og skemmtileg. Knús á ykkur dugnaðar krakkar.
María Skemmtileg frásögn af ævintýrum ykkar og flottar myndir af ykkur fallega og góða fólk<3
stefania sörheller Elsku krakkar minir hvað þið upplifið margt skemmtikegt og svona minna skkemmtilegt i bland gott elsku Martha min að þu fékkst ekki bíl yfir þig . Njótið lífsins àfram og farið varlega sorry ég veit þið eruð skynsöm. Knus til ykkar allra Mamma i Grenigrund